Aunty Bing Dao

Tuesday, May 24, 2005

Sólbrunnin með glóðurauga

Á laugardaginn leigðum við okkur bíl og ókum til Kenting. Þegar við komum á leiðarenda komumst við að því að það var ekkert hótelherbergi laust. Eftir nokkra stund fundum við laust herbergi á gistihúsi sem heitir "happy babe city" sem var við hliðina á morgunverðastaðnum "beautiful and breakfast" ...hvað um það, við leigðum okkur svo vespur á sunnudag og mánudag og keyrðum um alla suður ströndina og eitthvað upp með austurströndinni. Við fundum nokkrar frábærar strendur með góðum öldum og þar sem taiwanir eru ekki mikið fyrir sólina áttum við strendurnar út af fyrir okkur. Við gleymdum okkur gjörsamlega í sjónum í gær eða ca 5 tíma sem endaði auðvitað bara með hræðilegum sólbruna. Ég varð svo fyrir smá óhappi...Justin kíldi mig óvart í nefið þannig að núna er ég eins og epli með glóðurauga...ekki fögur sjón.
Robert missti sig aðeins í leiknum "fela Ingunni" og útkomuna má sjá hér fyrir neðan.
...nýjar myndir hér
Posted by Hello

Thursday, May 19, 2005

Nú er það "pakka niður" höfuðverkurinn !

Það leiðinlegasta sem ég geri er að pakka niður. Ég tala nú ekki um það þegar maður veit ekki hvað tekur við næst....mun ég koma aftur til Taiwans í september eða ekki ! Ég veit ekki hvort ég eigi að reyna að selja hluta af draslinu mínu fyrir slikk eða skilja það eftir hjá strákunum. Ég nenni varla að fara að senda það heim til þess að safna meira rusli í herbergið mitt á haukaberginu. Vespan mín...á ég að selja hana eða skilja hana eftir ? Ég nenni varla að taka hana með í ferðatösku til íslands eins og við Einar, Gísli og Oddný gerðum hér um árið ! Hahaha....Vá hvað ég sá eftir því þegar ég var komin hálfa leið til íslands. Við sem sagt tókum með okkur vespu frá Dóminíska lýðveldinu...pökkuðum henni niður í 3 ferðatöskur og komumst með hana alla leið til Íslands. Þetta var aðallega gert vegna þess að Carlos sagði að ég væri Chicken ef ég gerði það ekki. Aumingja Gísli og Oddný voru ekkert smá þolinmóð þegar við Einsi vorum að burðast með allar þessar töskur. Ótrúlegt hvað maður lætur hafa sig út í ;)
Svo er afhending Barónsstígsins 5.júní...trúi því ekki að ég sé búin að selja...sárt en það venst.

Einar fór til Beijing í fyrradag að hitta sendinefnd Óla R. Þar hitti hann óvænt fullt af fólki sem hann þekkti. Meðal annars stelpu sem var með honum í HR og mann sem var eitt sinn vinnumaður hjá pabba hans í Kjarnholtum. Hlakka ekkert smá til að hitta hann í Hong Kong eftir 2 vikur.

Jæja það er munnlegt próf hjá mér á morgun og ég geri allt annað en að læra. Ég þarf að segja sögu af taiwanskri konu sem giftist englendingi. Hún er bisnesskona og hann kennir lögfræði, þau kynntust á fyrlestri og urðu voða ástfangin. Pabbi konunar er voða ánægður með nýja tengdasoninn, sem er með blá augu og skollitað hár, því að hann hefur mikinn áhuga á kínverskri menningu og talar kínverskuna mjög skýrt og skilmerkilega. Og ég tala nú ekki um kínverska nafnið sem hann ber..Zhang You Qi ... stórkostleg kennslubók sem ég er með þessa önnina.

Wednesday, May 18, 2005

Það eru komnar nokkrar nýjar myndir í Albúmið

Tuesday, May 17, 2005

5 dagar í Kenting, 17 dagar í Hong Kong, 19 dagar Ísland !

Sólin er farin að skína á ný og ég er strax komin í helgarskap þótt það sé bara mánudagur. Ferðaplanið er aðeins breytt. Í stað þess að fara til Penghu eyju ætlum við að leigja okkur bíl og aka frá TaiChung til Kenting sem er syðsti oddur eyjunnar. Að mínu mati er það skemmtilegasti hluti eyjunnar með hvítum ströndum og pálmatrjám. Posted by Hello


Einar Rúnar flaug til Pekings áðan til að hitta sendinefnd Óla forseta. Hann ætlar svo að taka lest til baka sem sparar honum nokkuð góðan pening en ferðin mun þó vera 20 klst lengri.

Taiwanir hafa ýmsa skemmtilega siði sem ég held að ég hafi ekki sagt frá áður. Þeir sem eru búddatrúa ( sem eru flest allir ) gefa látnum ástvinum að borða ca einu sinni í viku. Þeir setja borð út á gangstétt og fylla það af allskyns mat og drykk. Síðan brenna þeir drauga peninga til þess að "fólkið" hafi einhverja peninga til að eyða þarna hinum megin. Ef þeir vilja vera sérstaklega góðir við þá ( draugana ) þá brenna þeir líka bíla ( Bens ) og hús úr pappa. Og auðvitað breytast þessir hlutir í alvöru bíla/hús þarna hinum megin.
Svo er það draugamánuðurinn sjálfur sem er júlí. Í júlí má maður ekki gera neitt...það má ekki gifta sig, ekki fara í sund og það er ekki mælt með því að fólk flytji ofl.ofl
Ég held að sá maður/kona sem fann upp á því að búa til bíla og hús úr pappa til að brenna sé mjög ríkur/rík núna þar sem að það búa um 23 milljónir manna í Taiwan. Ég tala nú ekki um ef hann hefur náð að selja þetta til kína líka !

Sunday, May 15, 2005

Það er búið að vera brjáluð rigning, þrumur og eldingar hjá okkur í ca 5 daga. Fyrir 2 dögum var það svo slæmt í miðbæ Taicung að fólk varð að vaða upp að hnjám til að komast ferða sinna. Nú er ég ánægð að búa í dong hai sem er upp á litlu fjalli. Posted by Hello

Thursday, May 12, 2005

Það verður gott að komast heim

Jæja nú er ég farin að telja síðustu daga mína hér í Taiwan. Það er alveg kominn tími á að anda að sér fersku sveitaloftinu i Ölfusinu og fá að hvíla heilann í 3 mánuði. Það er orðið óbærilega heitt hérna og moskítóflugurnar eru alveg að fara með mig...erum ekki góðar vinkonur. Einar kom í heimsókn í síðustu viku og var hjá mér í 5 daga sem var auðvitað mjög notarlegt. Við hittumst svo aftur eftir 3 vikur í Hong Kong á leið minni heim.

Ég, Amanda, Robert og Justin erum að fara í smá ferðalag um næstu helgi til Penghu eyju sem er á milli Kína og Taiwans en er samt partur af Taiwan. Þar ætlum við að liggja á ströndinni í 3 daga og hafa það gott.

Monday, May 02, 2005


Það er svo sannarega komið sumar hér í Taichung. Hitinn er í kringum 30°C sem er allt of heitt í svona stórborg. Chris og Justin buðu okkur í grillveislu á laugardaginn og var orðið langt síðan að ég hafði fengið grillaðan lax og nýjar kartöflur. Ég hafði orð á því einhverntímann hvað ég saknaði þess að fá ekki kartöflur ( án þess að ég muni eftir ) og þess vegna voru kartöflur aðalrétturinn á mínum disk.
Það er spurning hvort við verðum ekki að hafa einn fund hjá hvílauksgrillara félaginu áður en við förum til Leuven í sumar !

Og svo er ég líka búin að finna þessa frábæru geisladiska búð. Þar fann ég meðal annars nýja Mars volta diskinn ...og The music, Wilco og the bravery sem ég á reyndar eftir að melta. Posted by Hello

Statcounter