Aunty Bing Dao

Thursday, February 22, 2007

Haukabergið

Tilfinningar dagsins eru blendnar.
Frá því að ég man eftir mér hefur miðpunktur lífs míns verið á Haukabergi 3. Þar hafa mamma og pabbi búið í um 40 ár og þar hef ég alltaf átt heima og innst inni hélt ég alltaf að þar myndi ég alltaf eiga heima. Þegar ég var lítil öfundaði ég alltaf krakkana sem bjuggu í blokk...mér fannst ótrúlega svalt að búa í blokk og mér fannst líka ótrúlega svalt að sumir vinir mínir voru alltaf að flytja...skipta um hús, það var eitthvað svo spennandi. En í dag er ég ótrúlega sátt við að hafa alltaf átt heima á Haukabergi 3 og ótrúlega sátt við góðu minningarnar þaðan og nágrannana sem voru eins og foreldrar mínir...ekkert á því að flytja úr Haukaberginu.

Í Haukaberginu:
*Var ég skírð
*Kenndi ég Óla að hjóla.
*Hafa Ella, Davíð, Siggi og Sigga alltaf verið og eiga alltaf að vera í mínum augum...en ég var frekar sár þegar Pési og Lauga fluttu.
*Bjó eitt sinn Ellen þýska...sem ég var alltaf frekar hrædd við...og Arnar Snær
*Var einu sinni skemmtileg klöpp þar sem við óli gátum dundað okkur allan daginn í bílaleik.
*Var og er brekka sem var ótrúlega brött í minningunni.
*Voru oft haldin party fyrir skólaböll

En í dag var Haukaberg 3 selt og þótt ég sé sátt, foreldra minna vegna, er ég samt soldið leið.

En hver veit nema að einn daginn kaupi ég Haukaberg 3 og að Óli og Silla kaupi Haukaberg 6 og Maggi, Sesselía og Ingvar flytji líka í Haukabergið...væri það ekki frábært ? Ég finn það á mér ykkur finnst þetta snilldar hugmynd.

Thursday, February 15, 2007

Það gerðist ýmislegt í Reykjavík árið 1901...meðal annars þetta:

Sá atburður varð fyrir skömmu, að maður nokkur ókenndur reið allhart hér um götur. Pétur Pólití náði í manninn skammt frá Jóni Þórarsyni kaupmanni. Var maðurinn á hestbaki, hafði tvo til reiðar og búinn til brottferðar. Pétur er ungur í tigninni og vildi nú sýna rögg af sér og þreif til mannsins. Náði hann í kápulaf hans. En maðurinn beið ekki boðanna, sló í hestinn og baðaði út öllum öngum. Pétur lafði í kápulafinu og hékk þar upp eftir stígnum. Sá ókunni sló nú í af öllu afli, og kom ólin í höfuð Pétri. Hesturinn tók sprett mikinn, en rifa kom í kápuna. Sleppti Pétur tökum og greip til höfuðsins. Í þeim stympingum missti maðurinn hattinn af höfði sér. Pétur bað hann taka hattinn, en hinn gaf því engan gaum. Bað pólitíið menn þá að taka manninn en fáir voru þess fýsandi. Þó reyndi einhver að stöðva hann en fékk svipuhögg og varð frá að hverfa. Pétur og lýðurinn horfðu inn veginn, en maðurinn reið berhöfðaður guði á vald og hvarf úr sýn. - Enginn þekkti manninn, og ætla menn að þetta hafi verið útilegumaður !

Wednesday, February 14, 2007

Getur verið að maður brenni hluta af heilanum í burtu ef maður er mikið í ræktinni...í fituBRENNSLU ? Nei ég var bara svona að spá!

Hafið þið einhvern tímann fengið áfengi í tíma frá kennaranum ?
Nei, en ég varð gjörsamlega kjaftstopp þegar kennarinn skellir líters flösku af íslensku brennivíni upp á kennsluborð ásamt 40 staupum og segir " ef þið ætlið að verða leiðsögumenn þá verðið þið að smakka íslenskt brennivín " Nú jæja já...maður slær nú ekki hendinni á móti áfengi, sérstaklega ekki í leiðinlegri kennslustund...sem varð svo allt í einu skemmtileg. Brennivínið smakkaðist jafn ílla og þegar ég var 14 ára að stelast í litlu brennivínsflöskurnar í skápnum hjá mömmu og pabba. Ég fékk eiginlega bara smá flash back, frá götufylleríi...hvíta golfinum...ofl.

Á Sunnudaginn byrja kínversku áramótin og af því tilefni er mér boðið í mat í kínverska sendiráðið á fimmtudaginn. Það er alltaf gaman þegar maður fær tækifæri til að spreyta sig á kínverskunni, en ég verð samt að viðurkenna að hún er farin að dala ansi mikið. Ég er þó á leiðinni til Kína, nánar tiltekið Shang Hai, eftir rúman mánuð og vona ég að tungumálið rifjist eitthvað upp í þeirri ferð.

Nú og svo er stelpan á leiðinni til Frankfurt eftir 10 daga...bara helgarferð og Einar Rúnar kemur akkúrat heim eftir þá helgi :) Þá verða komnir um 2 mánuðir síðan ég sá hann síðast !